Kletturinn Kerling

Kletturinn Kerling er mjög skemmtilegt viðfangsefni. Sagan segir að kerling sú er stendur þarna sé í raun tröllkerling sem átti stóran þátt í því að landræman sem tengir Vestfirði við Ísland er svo stutt á milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar. Kerling þessi, ásamt tveimur öðrum tröllum ákváðu eitt sinn í sameiningu að gera Vestfirði að eyju. Hófust þau handa við gröftinn, tvö þeirra að vestanverðu en eitt að austanverðu. Gröfturinn gekk vel og landræman styttist í hverri skóflustungunni. Þegar líða tók að dögun og ekki var búið að moka alla landræmuna þá ákváðu tröllin að forða sér áður en sólin kæmi. Litu þau fyrst yfir firðina í innanverðum Breiðafirði að vestanverðu, sem voru orðnir fullir af eyjum en horfðu síðan yfir Húnaflóann að austanverðu og sáu að engin einasta eyja hefði myndast. Tröllunum sinnaðist við þetta og hlupu því hvort í sína áttina. Kerling á Drangsnesi er sú er gróf að austanverðu en hin tvö tröllin má sjá steingerð á harðahlaupum út eftir Kollafirði. Kerlingu á Drangsnesi líkaði ekki að engin eyja hafði myndast við gröft sinn svo hún lagði allan kraft í það rétt í dögun að mynda eina slíka fyrir utan Drangsnes. Það ku vera eyjan Grímsey í dag.

GPS punktar
N65° 41' 18.739" W21° 27' 29.641"
Póstnúmer
520