Áhugaverðir staðir

Á Vestfjarðaleiðinni má finna margar náttúruperlur og áhugaverða staði. Hvort sem þú vilt fara fótgangandi um fjöll og firnindi, skoða fossa, fjörur eða sögustaði eða ef þú nýtur þín betur í afslöppun í heitri náttúrulaug horfandi á stjörnurnar og norðurljósin þá er Vestfjarðaleiðin fyrir þig. 

Hver hluti Vestfjarðaleiðarinnar hefur upp á bjóða mismunandi og einstaka staði, gefðu þér tíma til að njóta. 

 

 

Deilum gleðinni og notum myllumerkin #Vestfjarðaleiðin eða #TheWestfjordsWay á ferð okkar um Vestfjarðaleiðina.

Valagil er staðsett í botni Álftafjarðar. Gilið er mikilfengleg sjón og þar finnast fjölbreytt berglög og stórbrotið landslag. Í botni Álftafjarðar er bílastæði og merkt gönguleið er inn að gilinu. Frá bílastæðinu er 2 km þægileg ganga inn að Valagili. Sumir telja að gilið dragi nafn sitt af fuglinum Fálka sem er stundum kallaður Valur, en þeir verpa gjarnan á svæðinu en aðrir telja að nafnið sé komið frá konu sem hét Vala og týndi lífi í gilinu fyrir hundruðum ára.

Bærinn Ísafjörður er staðsettur í Skutulsfirði við Ísafjarðardjúp og inn af Skutulsfirði liggja dalirnir Engidalur til vinstri og Tungudalur til hægri. Í gegnum Tungudal rennur áin Buná og í botni dalsins er fallegur foss. Dalurinn er sannkölluð miðstöð útivistar og ævintýra þar sem þar er að finna golfvöll, strandblakvöll, skíðasvæði, margar gönguleiðir og frábært tjaldsvæði. Í botni Tungudals er falleg sumarhúsabyggð og fyrir innan hana Tunguskógur.

Af Klofningi í Dölum er einstaklega fagurt útsýni meðal annars yfir eyjarnar á Breiðafirði og yfir á Snæfellsnes. Uppi á klettinum við þjóðveginn er hringsjá þar sem hægt er að átta sig á nánasta umhverfi.

Klofningur í Dölum, er fremsti hluti fjallgarðs sem nefnist Klofningsfjall og skiptir Breiðafirði í tvo hluta. Fremst á Klofningi mætast Fellsströnd og Skarðsströnd og liggur akvegurinn um skarð, Klofningsskarð. Landeyjarnes liggur þar fyrir
neðan. Á þessu svæði má oft sjá haferni.

Fyrrum var Klofningshreppur sér sveitarfélag, sem varð til árið 1918 við skiptingu Skarðsstrandarhrepps í Klofningshrepp og Skarðshrepp. Árið 1986 var Klofningshreppi síðan skipt á milli nágrannahreppana Skarðs- og Fellsstrandarhrepps.

Arnarnes er staðsett yst í Skutulsfirði áleiðis að Súðavík. Arnardalur er dalur sem gengur inn í hlíðina samhliða kirkjubólshlíð. Yst á Arnarnesi er Arnarnesviti og Arnarneshamar gengur þverhnípt í sjó fram. Sprengd voru göng í hamarinn árið 1948 sem síðan voru tekin í notkun árið 1949 þegar vegurinn var formlega opnaður. Sólsetrið sést vel frá Arnarnesi og er svæðið mjög vinsæll ferðamannastaður á góðum sólríkum sumarkvöldum.

Látrabjarg er stærsta sjávarbjarg Íslands og eitt af stærstu fuglabjörgum í Evrópu. Bjargið er vestasti tangi Íslands og því er yfirleitt skipt upp í fjóra hluta í daglegu tali, Keflavíkurbjarg, Látrabjarg, Bæjarbjarg og Breiðavíkurbjarg. Gríðarlegan fjölda fugla af ýmsum tegundum er að finna í bjarginu, þ.á.m álku, langvíu, stuttnefju, lunda og ritu.

Ógnarbratt, 14 km langt bjargið er margbreytilegt og þar eru grónir grasblettir og einnig snarbrattir klettar. Rétt er að fara mjög gætilega þar sem bjargbrúnin er snarbrött og getur verið viðkvæm. Látrabjarg er einn af vinsælustu ferðamannastöðum Vestfjarða og þangað er hægt að keyra.

Vigur er ein þriggja eyja á Ísafjarðardjúpi og liggur úti fyrir mynni Skötufjarðar og Hestfjarðar. Hún er löng og mjó og dregur nafn af lögun sinni, en orðið vigur merkir spjót. Í Vigur var löngum stundaður heilsársbúskapur en nú eru þar engar kýr lengur. Þar eru þó enn nýtt hlunnindi, þ.e. æðarvarp og fuglatekja. Ferðir út í eyjuna hafa verið vinsælar á meðal íslenskra og erlendra ferðamanna undanfarin ár.

Lundi, æðarfugl og kría eru helstu fugarnir á eynni og eitt helst aðdráttaraflið. Lundinn er búinn að koma sér svo vel fyrir í eyjunni að hann er búinn að grafa hana nánast í sundur. Ferðamönnum sem ferðast um eyjuna er því bent á að fylgja stígnum sem útbúinn hefur verið til þess að eiga ekki á hættu að detta ofan í lundaholur.

Í Vigur er minnsta pósthús á Íslandi, eina kornmyllan á Íslandi og flest húsin eru nýlega uppgerð af Þjóðminjasafninu.

Til þess að komast út í Vigur þá þarf að taka bát frá Ísafirði en ferðirnar eru skipulagðar daglega.

Skálavík er næsta vík vestan við Bolungarvík en þar var byggð allt til fimmta áratugar síðustu aldar. Núna er sumarbústaðaland í víkinni og oft mikið fjör. Á góðum sumardögum þá safnast fullt af fólki saman á stöndinni og ef vel er heitt þá er stundum hoppað í Hylinn í Langá. Skálavík er paradís fyrir börn og algjörlega upplagt að stoppa þar og leika. Á leiðinni til baka er fullkomið tækifæri að kíkja upp á Bolafjall og kíkja aðeins á útsýnið.

Framúrskarandi Bolafjall er frábær útsýnisstaður fyrir ofan Bolungarvík og segja má að útsýnispallurinn sé einn helsti viðkomustaður ferðamanna á norðanverðum Vestfjörðum. Frá fjallinu er stórbrotið útsýni að Hornstrandafriðlandinu, Jökulfjörðum, Ísafjarðardjúpi og sumir segja alla leið til Grænlands. Sólsetrið er einnig sérstaklega fallegt frá Bolafjalli. Vegurinn upp á fjallið er eingöngu opinn yfir sumarmánuðina en hann var byggður fyrir Radarstöðina sem staðsett er á fjallinu. Stöðin var byggð af ameríska hernum á áttunda áratugnum en er núna rekin af íslensku Landhelgisgæslunni. Áður en farið er upp á Bolafjall, eða jafnvel eftir, þá mælum við með því að ferðamenn kíki við í Skálavík

Vegurinn upp á fjallið er opnaður þegar aðstæður þykja vera orðnar góðar og lokað þegar snjóa tekur að hausti. Venjulega er vegurinn opinn frá miðjum júní til miðs septembermánaðar.

Í Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði er áberandi hvilft sem setur mikinn svip á fjallasýn fjarðarins. Naustahvilft hefur einnig gjarnan verið kölluð Skálin eða Skessusætið. Oft er sagt að skessa sem hafi verið á hraðferð heim fyrir sólarupprás hafi þurft að hvíla lúin bein í firðinum og tyllt sér í hlíðinni og skilið eftir þessa myndarlegu hvilft þegar hún stóð upp og hélt áfram leiðar sinnar.

Það er vinsælt að ganga upp í Naustahvilft, það er stutt ganga eftir slóða í brattri hlíðinni og þaðan er frábært útsýni yfir Ísafjörð og út á Djúp. Fyrir neðan hvilftina er lítið bílastæði.

Breiðafjörður er annar stærsti flói landsins en mynni hans er 70 km á breidd. Þar sem fjörðurinn er grynnri og mjórri, eru nær óteljandi eyjar, en talið er að þær séu um 2700-2800 og auk þeirra eru fjöldamörg sker og boðar. Ýmsar þessara eyja voru byggðar fyrrum en langflestar þeirra eru nú í eyði.

Flatey er eina undantekningin en hún er stærst Breiðafjarðareyja og þar eru 6 manns með skráð lögheimili. Flatey er einnig eina Breiðafjarðareyjan sem er í byggð allt árið. Margar eyjanna voru í byggð fyrir ekki svo löngu síðan líkt og Hvallátur, Svefneyjar og Akureyjar en það er af sem áður var. Eyjarnar eiga það allar sameiginlegt að hafa myndast undan afli skriðjökla á ísaldartímanum. Þær eru flatlendar að mestu og jarðlögin svipuð og á Vestfjörðum. Í mörgum eyjanna er mikil gróska og margar tegundir plantna. Stór hluti af hérlendum stofnum fugla eins og lunda, æðarfugls og teistu er á firðinum. Sagt er að fólk sem bjó við Breiðafjörð og á eyjunum hafi sjaldan eða aldrei liðið matarskort. Eyjarnar iða af fuglalífi og flesta fuglana má nytja. Auk þess var gnægð fisks og sjávarspendýra í flóanum, fjörubeit og fleira. Lífríki eða vistkerfi svæðisins er óvenju fjölþætt og stóð af sér harðæri sem komu verr niður annars staðar og ollu þá jafnvel fólksflutningum til Breiðafjarðarsvæðisins.

Í botni Patreksfjarðar er að finna fallegan foss sem heitir Svuntufoss. Til að komast að honum, er ekið eftir vegi 62 í átt að Patreksfirði. Um 5 mínútum eftir að ekið er fram hjá Kleifakarlinum, er beygt til hægri inn á lítinn malarveg. Þessi vegur er ekki í góðu ástandi, akið því varlega eftir veginum í örfáar mínútur og þá er komið á áfangastað. Gæta skal fyllsta öryggis við fossinn. Engin bílastæði eða innviðir eru við fossinn, því skal passa að ganga vel um svæðið.

Hornbjarg er þverhnípt bjarg í friðlandinu á Hornströndum. Nyrsti oddi Hornbjargs heitir Horn og er nyrsti tangi Vestfjarða og þaðan fá Hornstrandir nafn sitt. Bjargið er snarbratt og hæsti tindur þess, Kálfatindur er í 534 metra hæð, tindurinn Jörundur er þar næstur í 429 metra hæð. Bjargið er einstök sjón og engu öðru líkt, einstaklega grænar og grasgrónar hlíðar sem skyndilega verða að snarbröttum klettaveggjum sem hrapa í sjóinn.

Hornbjarg er eitt af mestu fuglabjörgum landsins og þar verpa fjölmargar tegundir bjarg og sjófugla.

Til að komast að Hornbjargi þar að fara með bát frá Ísafirði.

Hælavíkurbjarg er staðsett á milli Hælavíkur og Hornvíkur á Hornströndum. Bjargið er beint í sjó fram og afskaplega skemmtilegar bergmyndarnir má sjá í bjarginu. Bjargið er 521 metra hátt þar sem það er hæst og margir sjófuglar sem byggja það. Súlnastapi stendur fyrir utan bjargið en þar er mikil súlubyggð.

Fossfjörður er einn af svokölluðum Suðurfjörðum, sem ganga inn úr Arnarfirði. Suðurfirðirnir eru Bíldudalsvogur, Fossfjörður, Reykjarfjörður, Trostansfjörður og Geirþjófsfjörður. Fossfjörður er þeirra vestastur. í botni Fossfjarðar er bærinn Foss og þar er einnig að finna fallegan foss sem heitir einfaldlega Foss. Í Fossfirði er vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem hefur fengið nafnið A-húsið. Húsið er gamalt yfrigefið sem hefur verið vinsælt myndefni ferðalanga fyrir þær sakir að það er afar sérstakt í laginu og stendur á fallegum stað.

Drangaskörð eru eitt helsta kennileiti Vestfjarða en eitt af þeim atriðum sem minnst er talað um. Drangaskörð eru staðsett í Árneshreppi á Ströndum og sjást best úr fjarlægð frá Reykjanesi við bæinn Munaðarnes. Drangarnir ganga í sjó fram norðantil í Drangavík og frá þessum Dröngum dregur Drangajökull nafn sitt.

Á milli Steingrímsfjarðar og Veiðileysufjarðar liggur Bjarnarfjörður. Bæði er hægt að keyra norður yfir Bassastaðaháls frá Steingrímsfirði og einnig að keyra strandlengjuna frá Drangsnesi og yfir í Bjarnarfjörð.

Bjarnarfjörður býður upp á ýmislegt og má þar helst nefna Gvendarlaug og Kotbýli Kuklarans. Sundlaug er einnig að finna við Hótel Laugarhól. Svæðið er ákaflega fallegt og hentar vel til styttri jafnt sem lengri gönguferða.

Vaðalfjöll eru tveir blágrýtisgígtappar sem standa um það bil 100 metra upp úr heiðinni ofan við Berufjörð og Þorskafjörð í Reykhólahreppi. Talið er að fjöllin dragi nafn af miklum vöðlum eða leirum í Þorskafirði. Vaðalfjöll sjást vel víðsvegar að og úr öllum áttum, útsýnið af toppnum er virkilega stórfenglegt og sést vel inn á Vestfirðina ásamt því að sjá yfir Breiðafjörðinn og yfir í Dalina. Þeir sjást úr fjarska þegar keyrt er að Bjarkalundi.
Auðvelt er að ganga upp á topp á báðum töppunum, jafnvel að byrja á þeim lægri og halda svo upp á þann hærri úr skarðinu á milli þeirra tveggja.

Sundlaugin í Laugarnesi við Birkimel á Barðaströnd er fallega staðsett lítil sundlaug með glæsilegu útsýni yfir Breiðafjörð. Bæði er hægt að svamla um í steyptri sundlaug sem og að liggja út af í minni náttúrulaug neðand við þá stóru.

Það er Ungmennafélag Barðastrandar sem á og rekur laugina.

Vatnsfjörður er einn af fjörðunum sem ganga norðan úr Breiðafirði og er hann vestastur þeirra. Fjörðurinn var friðlýstur árið 1975 til að vernda náttúru landsins. Landslag í firðinum er að mestu gróft og stórgrýtt hálendi en láglendi hans er vaxið kjarri að mestu. Þar skapast mikil veðursæld og þaðan er tilvalið að heimsækja marga af helstu ferðamannastöðum sunnanverðra Vestfjarða. Úr Vatnsfirði tekur um eina og hálfa klukkustund að aka að Látrabjargi og Selárdal og einungis um hálfar stundar akstur er að Dynjanda.

Ófáir Strandamenn hafa dregið sig saman í pottunum á Drangsnesi, enda hefur þar löngum verið samkomustaður ungs fólks á öllum aldri. Pottarnir þrír eru fyrir neðan veg nálægt sjónum og eru þeir mjög vel sýnilegir frá þorpinu og veginum. Vinsældir pottanna virðast síst hafa minnkað síðustu misseri þó fyrirtaks sundlaug hafi verið reist í plássinu ekki fyrir svo löngu síðan.

Aðgangseyrir: frjáls framlög.

Vatnsfjörður er einn af fjörðunum sem ganga norðan úr Breiðafirði og er hann vestastur þeirra. Fjörðurinn var friðlýstur árið 1975 til að vernda náttúru landsins. Landslag í firðinum er að mestu gróft og stórgrýtt hálendi en láglendi hans er vaxið kjarri að mestu. Þar skapast mikil veðursæld og þaðan er tilvalið að heimsækja marga af helstu ferðamannastöðum sunnanverðra Vestfjarða. Úr Vatnsfirði tekur um eina og hálfa klukkustund að aka að Látrabjargi og Selárdal og einungis um hálfar stundar akstur er að Dynjanda.

Dynjandi er mestur fossa á Vestfjörðum. Hann má finna í Dynjandisvogi fyrir botni Arnarfjarðar. Fossinn og umhverfi hans hans var friðlýst sem náttúruvætti árið 1981, enda um einstaka náttúruperlu að ræða.
Dynjandi er í ánni Dynjandi sem rennur ofan af Dynjandisheiði. Hún á upptök sín í nokkrum vötnum á heiðinni sem liggur í jaðri hálendissvæðis Glámu. Glámusvæðið einkennist af jökulruðningum og dældum sem smávötn hafa safnast í.
Dynjandi fellur niður u.þ.b. 100 metra hátt og bungumyndað berg. Fossastiginn hefur orðið til vegna lagskiptingar bergsins í hraunlög og lausari millilög. Fossberarnir eru hraunlögin en millilögin hefur áin grópað undan þeim. Fossarnir í Dynjanda eru sex. Efst er Fjallfoss, þá Hundafoss, Strokkur, Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss og Sjóarfoss.

Rauðasandur er 10 kílómetra löng strandlengja sem einkennist af fallega lituðum rauðum sandi. Liturinn getur verið allt frá því að vera gulur, rauður og allt að því svartur, þetta fer allt eftir birtunni. Sandurinn fær þennan rauða lit líklegast vegna skeljabrota frá Hörpudiskskeljum.

Tilvalið er að koma á Rauðasand á háfjöru og rölta um sandinn og týna sér í víðáttunni og njóta útsýnisins. Rauðisandur býður upp á frábært útsýni að Snæfellsnesi og þar fær jökullinn að njóta sýn í góðu veðri.

Við mælum einnig með því að stoppa á kaffihúsinu!

Örlygshöfn er staðsett við sunnanverðan Patreksfjörð. Þar er að finna gullna strönd og á sólríkum sumardögum verður sjórinn ljósblár og suðrænn að sjá. Nálægt Örlygshöfn er minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti en þar er að finna ýmsa áhugaverða muni tengda lífi og vinnu til sjós og lands með áherslu á Vestfirði og Breiðafjörð. Safnið hefur verið þarna í rúm 30 ár og þar eru settar upp ýmsar sýningar.

Svalvogavegur er 49 kílómetra langur vegkafli sem liggur á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Leiðin er torfær og erfið yfirferðar á köflum. Á stórum kafla þá þarf að fylgja sjávarhæð því þegar fellur að er vegurinn undir sjávarmáli. Svalvogavegur er með fallegustu leiðum á Íslandi til þess að keyra. Það er ekki hægt að keyra veginn nema vera á fjórhjóladrifnum bíl en best er þó að hjóla leiðina á góðu fjallahjóli þar sem vegurinn getur verið grýttur.

Ef lofthræddir einstaklingar eru í bílnum þá er lagt til að keyrt sé út Arnarfjörð frá Hrafnseyri og sá hringur tekinn að Þingeyri. Þá snýr bíllinn alltaf að fjallshlíðinni ef svo óheppilega vill til að þú mætir bíl. Einnig getur verið skemmtilegt að útbúa hring og keyra þá leiðina um Kvennaskarð og keyra framhjá hæsta fjalli Vestfjarða á leiðinni.

Arnarfjörður hefur af mörgum verið talinn einn fallegasti fjörður landsins, það kemur kannski ekki að óvart enda ótrúlegar perlur sem leynast í firðinum. Fjörðurinn er stór og mikill. Inn af honum ganga nokkrir firðir, til austurs ganga úr Arnarfirði Borgarfjörður og Dynjandisvogur og firðirnir sunnar eru gjarnan kallaðir Suðurfirðir en þeir eru fjórir talsins, Fossfjörður, Reykjafjörður, Trostansfjörður og Geirþjófsfjörður sem er nyrstur. Við Arnarfjörð stendur Bíldudalur yst vestanmegin í firðinum. Þekktustu perlur Arnarfjarðar eru án efa Hrafnseyri, fæðingarstaður Jóns Sigurðssonar, og fossinn Dynjandi. En þetta eru ekki einu staðirnir í Arnarfirði sem vert er að heimsækja, við mælum einnig með Ketildölunum, Listasafni Samúels Jónssonar og ekki gleyma að horfa út á fjörðin í leit að sjóskrímslum.

Ketildalir er röð af stuttum dölum á suðurströnd Arnarfjarðar, frá Kópsnesi inn að Bíldudalsvogi. Þverhníptir fjallgarðar mynda dalina, umkringdir klettabeltum efst og niður af þeim falla snarbrattar skriður og víða teygja fjöllin sig þverbrotin í sjó fram.

Víða má finna surtarbrand og plöntusteingervinga í berglögum.

Selárdalur er einna vinsælasti áfangastaðurinn á þessum slóðum en þar er glæsilegt útsýni yfir Arnarfjörð og hægt að sjá hinn 1000 metra háa Kaldbak, hæsta fjall Vestfjarða. Í Selárdal leynist listasafn Samúels Jónssonar(1884-1969) sem var oft kallaður "listamaðurinn með barnshjartað". Hann byggði bæði hús og reistu kirkju þar sem sjá má bæði málverk og styttur eftir listamanninn. Allt frá 1998 hefur félag um endurreisn safnsins stuðlað að viðhaldi á listaverkum og byggingum Samúels.

Trostansfjörður er djúpur fjörður sem horft er yfir og ekið ofan í af Dynjandisheiði, innst í Arnarfirðinum lúrir hann með snarbrattar gróðurvaxnar hlíðar.

Kaldbakur er hæsta fjall Vestfjarða og er staðsett á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Fjallið er 998 metra hátt og sést vel frá mörgum stöðum á Vestfjörðum. Mörg fjöll á Vestfjörðum hafa flatan topp, sem er vegna legu jökla á ísöld en nokkur fjallana á Vestfjörðum hafa toppa sem minna á Alpana og Kaldbakur er eitt þessara fjalla og því má segja að hann tilheyri "vestfirsku ölpunum". Efst á Kaldbak er flatur blettur en hann hefur þó snarbrattar hlíðar og þaðan er frábært útsýni. Tiltölulega auðvelt er að ganga á Kaldbak, hægt er að keyra eftir jeppavegi að Kvennaskarði, sem skilur að Arnarfjörð og Dýrafjörð, þar er hægt að geyma bílinn og ganga upp á topp. Gangan upp og niður tekur um það bil 4 klst. Einnig er hægt að ganga upp á Kaldbak úr Fossdal í Arnarfirði, sem lengir gönguna um helming en sú leið er mjög falleg og skemmtileg.

Dýrafjörður er fjörður sem bærinn Þingeyri stendur við og er staðsettur á milli Arnarfjarðar í suðri og Önundarfjarðar í norðri. Dýrafjörður er innan marka sveitarfélagsins Ísafjarðarbæjar. Í Dýrafirði eru sterk tengsl við Frakkland og er þar meðal annars að finna grafreit franskra sjómanna. Frakkland vildi eitt sinn stofna nýlendu í Dýrafirði því mikil frönsk útgerð var gerð út frá firðinum.

Dýrafjörður kemur einnig mikið fyrir í Gísla Sögu Súrssonar. Landslag í Dýrafirði er fallegt og setja fjöllin skýran svip á fjörðinn. Sandafell, ofan Þingeyrar, og Mýrarfell, handan fjarðar, standa ein og sér líkt og konungur og drottning fjarðarins. Vestfirsku alparnir eru sunnantil í firðinum og þar er að finna hæsta fjall Vestfjarða, Kaldbak. Fallegasta en jafnframt hrikalegasta vegarstæði Vestfjarða er hinn ægifagri Svalvogavegur er liggur út með Dýrafirði, fyrir Svalvoga og Lokinhamra og inn með Arnarfirði. Einnig er hægt að fara hringleið með því að keyra aftur meðfram Kaldbak yfir Kvennaskarð. Mikil og sterk tengsl eru við Víkingatímann í Dýrafirði og það hefur meðal annars verið byggt upp víkingaþorp á Þingeyri.

Önundarfjörður er 20 km langar fjörður sem liggur á milli Dýrafjarðar og Súgandafjarðar. Fjörðurinn er um 6 km breiður við mynni hans en mjókkar þegar innar dregur. Inn af Önundarfirði ganga litlir grónir dalir og undirlendi er töluvert.

Í Önundarfirði eru allmargir sveitabæir og utarlega í firðinum stendur þorpið Flateyri. Í firðinum er fallegt um að litast og mikilfengleg fjallasýn umkringir hann. Í Önundarfirði er Holtsfjara og í henni stendur Holtsbryggja sem er vinsæll viðkomustaður ferðalanga sem og heimamanna. Þar er gyllt strandlengja og stór trébryggja.

Til að komast til Önundarfjarðar frá Ísafirði er ekið í gegnum Vestfjarðagöng.

Ingjaldssandur er stór dalur á milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar. Áður átti margt fólk heima á Ingjaldssandi en núna eru íbúarnir eingöngu tveir. Vegurinn yfir Sandsheiði er nógu góð ástæða til þess að keyra yfir á sand þar sem útsýnið frá heiðinni er stórkostlegt. Á Ingjaldssandi er félagsheimilið Vonarland og lítil kirkja með óvenjulegan keltneskan kross á toppnum. Ströndin og sandurinn er einnig heillandi.

Drangajökull er eini jökullinn sem eftir er á Vestfjörðum. Jökullinn er sá fimmti stærsti á landinu og sá eini jökla á Íslandi sem ekki nær 1000 metra hæð. Drangajökull fær nafn sitt frá Dröngum er ganga í sjó fram hjá Drangavík. Milli þessara dranga eru hin svokölluðu Drangaskörð og eru mjög tignarleg að sjá. Meðan Hornstrandir voru í byggð lá alfaraleið þangað norður yfir jökulinn og meðal annars þá sóttu bændur við djúp rekaðvið á Horn- og austurstrandir og drógu yfir jökul.

Hornstrandafriðland nær yfir nyrsta hluta Vestfjarðakjálkans. Auk hinna eiginlegu Hornstranda nær friðlandið yfir Aðalvík og norðurhluta Jökulfjarða.

Á Hornströndum er stórbrotin og einstök náttúrufegurð. Meðfram ströndinni eru snarbrött fjöll og inn í þau ganga firðir, víkur og dalir. Land er mótað af ágangi sjávar og jöklum ísaldar sem hafa skilið eftir ófáar hvilftir og skörð. Jarðsöguna má lesa úr landslagi og eru víða menjar um gróðurfar og veðurfar fyrir milljónum ára. Gróðurfar er einstakt. Gróður hefur aðlagast aðstæðum á svæðinu, stuttum og björtum sumrum og snjóþungum vetrum, og er furðu gróskumikill. Þá hefur landið lengi haft frið fyrir ágangi manna og búfjár. Víða er fallega gróið land í víkum og fjörðum og á síðustu áratugum ber meira á nokkrum tegundum plantna sem áður voru nánast horfnar vegna beitar. Fuglalíf er auðugt á svæðinu enda fæðuskilyrði góð í hafinu og enginn hörgull á hentugum varpstöðvum. Á sumrin er mest um fugla sem halda til á sjó og eingöngu setjast upp til að verpa. Einnig verpir fjöldi fugla, vatna og votlendisfugla af ýmsum tegundum með ströndinni. Meðal fuglabyggða eru tvö af stærstu fuglabjörgum landsins. Í Hælavíkurbjargi er talin vera mest svartfuglabyggð á landinu og hvergi er meira um langvíu en í Hornbjargi.

Refir eiga hér griðland. Heimskautarefir lifa allt umhverfis norðurhvel jarðar og eru einstaklega vel aðlagaðir veðráttu og fimbulkulda á norðurslóðum. þeir munu hafa verið einu villtu landspendýrin á Íslandi við landnám og hafa líklega borist til landsins á ísöld þegar jökulhvel ísaldar tengdi saman lönd á norðurhjara. þá má gera ráð fyrir að refir hafi alla tíð síðan borist öðru hverju með hafís til landsins. Á Hornströndum má hvarvetna rekast á refi enda hafa fleir nóg að bíta og brenna. Í friðlandinu virðist þeim ekki standa mikil ógn af mönnum og eru reyndar orðnir talsvert mannvanir sumir hverjir. Áður var hér allnokkur byggð og þeir sem áttu allt sitt undir náttúrunni nýttu hlunnindi sem hún gaf eins og framast var kostur. Byggð lagðist af fyrir u.fl.b. hálfri öld og víða er að finna menjar um horfna búsetu og lífsbaráttu genginna kynslóða. Hvarvetna blasir fortíðin við og gamlar frásagnir koma upp í hugann nánast við fótmál hvert. Hornstrandir eru paradís náttúruunnenda og landið sveipað ævintýraljóma í vitund ferðalanga. Hornstrandafriðland hefur sérstöðu að því leyti að það er ekki í vegasambandi við umheiminn og eingöngu fært þangað sjóleiðina eða á tveimur jafnfljótum. Um svæðið liggur fjöldi gönguleiða við allra hæfi. Reglubundnum ferðum er nú haldið uppi að sumrinu. Á sumrin er einnig rekin gisting og greiðasala á nokkrum stöðum í friðlandinu. Samfara aukinni umferð hafa verið settar reglur um umgengni í Hornstrandafriðlandi sem ferðafólki ber að kynna sér. Hægt er finna þær og fleiri upplýsingar um Hornstrandir á vefnum https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/vestfirdir/hornstrandir . Svæðið er í Ísafjarðarbæ en í umsjón Umhverfisstofnunar. Gestastofa Hornstrandastofu er staðsett rétt við Silfurtorg í miðbæ Ísafjarðar.

Breiðavík er staðsett á leiðinni út á Látrabjarg. Keyrt er suðvestur yfir hálsinn frá Örlygshöfn og komið er niður í Breiðavík. Í Breiðavík er kirkjustaður og Hótel er þar starfrækt allt árið. Vegurinn er ekki upp á marga fiska en það er þannig á mögum öðrum stöðum á Vestfjörðum. Við mælum með því að fólk taki sér stopp á leið sinni að eða frá Látrabjargi og gangi niður á sandinn í Breiðavík. Skemmtilegt er einnig að sjá hvernig sandurinn hefur fokið upp í fjallshlíðarnar sitthvoru megin og myndar því einskonar strönd upp á fjallstoppana

Hellulaug er náttúrulaug rétt svo spölkorn frá þjóðveginum í Vatnsfirði rétt áður en komið er að Flókalundi. Hitastigð í Helluaug er 38° og hún um 60cm djúp með frábæru útsýni yfir fjörðinn. Laugin sést ekki frá veginum, en það er bílastæði til staðar ásamt stíg sem liggur niður að lauginni.

Rétt við þjóðvegin í Reykjafirði er útisundlaug sem í rennur allt árið í kring. Aðstaða er til fataskipta, en rétt fyrir ofan laugina sjálfa, er líti hlaðin setlaug af náttúrunnar hendi. Þar er yndislegt að slaka á og horfa yfir Arnarfjörðinn, en best er að láta vita að laugin getur orðið dálítið heit. Aðgangur er ókeypis.


Gísla saga Súrssonar spannar stórt svæði af fjörðunum og þar er sögustöðunum lýst af kunnáttu og nákvæmni. Allt fram á 20. öldina voru atvinnuhættir á þessum slóðum hinir sömu og voru á dögum Gísla Súrssonar. Þegar tækni nútímans hóf innreið sína á Vestfirði, voru sumir staðir þegar komnir í eyði. Þess vegna líta ýmsir sögustaðanna nánast eins út og þeir gerðu á meðan Gísli Súrsson gekk þar um. Vegna hinnar ósnortnu náttúru sem þú getur víða notið á Vestfjörðum, hefur þú tækifæri til að komast í snertingu við söguþrungna fortíð svæðisins.

Á Þingeyri er búið að byggja upp Víkingasvæði með útivistarsvæði sem saman stendur af sviði, bekkjum og borðum og grillaðstöðu og er aðstaðan mynduð úr hringhleðslu úr grjóti. Við höfnina má sjá Víkingaskipið Véstein við akkeri.

Víkingasvæðið Þingeyri

S: 863-2412

thorir@simnet.is

Hvítanes er staðsett á nesinu milli Hestfjarðar og Skötufjarðar. Frá Hvítanesi er gott útsýni yfir Ísafjarðardjúpið og Vigur. Það sem leynist í fjörunni við bæinn er það sem fær flesta til þess að nema staðar. Á klöppunum og skerjunum rétt fyrir utan liggja yfirleitt nokkrir selir og stundum nokkrir tugir þeirra. Það eru fáir staðir á Íslandi sem bjóða upp á jafn mikla nálægð við þessi dýr líkt og Hvítanes. Bændurnir í Hvítanesi hafa einnig gert svæðið skemmtilegra með því að setja upp borð og bekki.



Skrúðgarðurinn Skrúður í Dýrafirði var opnaður þann 7. ágúst árið 1909. árið 1992 ákvað hópur áhugasamra einstaklinga sig til og tók garðinn í gegn og í ágúst árið 1996 var honum skilað aftur til fyrrum eiganda síns, Menntamálaráðuneytisins. Ráðuneytið gaf Ísafjarðarbæ garðinn í nóvember sama ár til umhugsunar. Garðurinn var stofnaður til þess að tengja saman náttúruna, menntun tengda umhverfinu og Héraðsskólann á Núpi. Garðurinn er góð innsýn í sögu grasafræðinnar á Íslandi og þá einkum og sér í lagi vegna fjölda tegunda og staðsetningar nánast norður á hjara veraldar.

Önundarfjörður er einstaklega fallegur fjörður, meira að segja á Vestfirskan mælikvarða. Þetta er að mestu leiti að þakka Holtsfjöru sem einkennist af gulleitum skeljasandi. Heimsókn í Holtsfjöru á góðum sumardegi getur verið eins og að vera á Spáni. Trébryggjan í Holti er einnig einn mest myndaði staður á Vestfjörðum.

Á varptíma æðarfugla (15. apríl til 14. júlí) eru ákveðnir hlutar strandarinnar, eins og sandhólarnir, friðaðir til að vernda æðarfugla og hreiður þeirra. Gestir eru beðnir um að virða þessi svæði og halda sig fjarri merktum varpstöðum til að tryggja að fuglarnir geti orpið í friði.

Í Syðridal, inn af Bolungarvík, er staðsett gömul surtarbrandsnáma. Surtarbrandur var numinn úr námunni á árunum 1917-1921, eða um og fram yfir fyrri heimstyrjöld. Ástæðan fyrir því að hætt var að vinna surtarbrand í námunni er vegna þess hversu ósamkeppnishæfur surtarbrandur er gagnvart brún- eða steinkolum sem tiltölulega auðvelt var að nálgast frá Evrópu eftir stríð. Surtarbrandurinn inniheldur um 60% kolefni en brún og steinkol á milli 70 og 80%. Námurnar í syðridal eru í raun tvær, Gilsnáma og Hanhólsnáma og eru þær eru sitt hvoru megin Gilsár. Gilsnáma, sem oft er talað um sem hina eiginlegu surtarbrandsnámu er rúmlega hundrað metra langur hellir þar sem enn má sjá tæki og tól sem notuð voru við námuvinnsluna. Hanhólsnáman hinsvegar er handan árinnar og stikla þarf yfir ána til þess að komast að henni. Hún er mun styttri eða um 5-10 metra löng og surtarbrandurinn auðséður. Opið inn í Gilsnámuna er mjög þröngt, en um leið og komið er inn er mikil lofthæð og vel hægt að standa uppréttur. Gangan upp að námunni tekur um 20-25 mínútur eftir stikaðri gönguleið og vel þess virði að kíkja á hana.

Á kvennaárinu 1975 var sett upp minningartafla um landnám Þuríðar Sundafyllis á stóran stein sem nefnist Þuríðarsteinn. Steinninn er staðsettur í Vatnsnesi en þar er talið að bær Þuríðar Sundayllis hafi staðið.

Kýrin Sæunn er sá gripur sem flestir munu hafa heyrt um úr bústofni Kirkjubóls. Sæunn synti yfir þveran Önundarfjörð til þess að komast hjá því að verða slátrað og bjargaði þannig lífi sínu einn kaldan októberdag árið 1987. Hún lifði í sex ár eftir það í góðu yfirlæti á Kirkjubóli en var þá felld og heygð í sjávarkambinn þar sem hana bar að landi forðum og heitir þar Sæunnarhaugur.
Sundafrek Sæunnar eða Hörpu eins og hún hét fyrir sundið mikla komst í fréttir bæði hérlendis og erlendis enda fátítt að kýr leggist til sunds hvað þá svona langa leið.

Sandafell er lítið fell ofan Þingeyrar (362metrar). Upp á fellið liggur vegur sem einungis er fær 4x4 bílum. Hægt er að ganga upp fellið frá Þingeyri og þaðan er frábært útsýni.

Hvammur í Dölum/Dalabyggð er bær og kirkjustaður. Þar nam land Auður djúpúðga frá Dögurðará í utanverðri Hvammsveit til Skraumuhlaupsár í Hörðudal í kringum árið 890. Bústað sinn reisti hún í Hvammi og þar bjuggu ættingjar hennar um langan tíma.

Auður var einn fárra landnámsmanna sem var kristin og Hvammur var eitt mesta höfðingjasetur í Dalasýslu til forna. Ættfaðir Sturlunga, Hvamms-Sturla Þórðarson bjó í Hvammi. Hann var afkomandi Auðar djúpúðgu og þar fæddust synir hans Þórður, Sighvatur og Snorri.

Dalurinn sem Hvammur er í nefnist Skeggjadalur. Þar er einstök verður- og skjólsæld. Skeggi sá, sem dalurinn er nefndur eftir, bjó í Hvammi

Skarfasker er útsýnisstaður á leið út á Óshlíð og tilvalinn staður til þess að leggja bílnum og ganga eða hjóla Óshlíðina. Á Skarfaskeri stóð lengi sorpbrennslustöð en á grunni hennar er búið a útbúa útsýnisstað með skiltum.

Sælingsdalslaug eða Laugar eru bær í Dölum. Þar var löngum skólasetur og aðstaða til íþróttaiðkunar og hafa skólahúsin verið nýtt á ýmsa vegu, meðal annars voru þar skólabúðir um tíma. Að Laugum er 25 metra útilaug, vaðlaug, heitir pottar og gufubað sem opið er öllum.

Á Laugum er Guðrún Ósvífursdóttir, ein af aðalsöguhetjum Laxdælu, fædd og uppalin. Bærinn stendur í grösugum dal, Sælingsdal sem umlukinn er lágum fjöllum frá botni Hvammsfjarðar.

Jarðhiti er á svæðinu og koma heitar uppsprettur undan fjallinu. Þar var borað eftir heitu vatni 1964-1965. Öll hús á staðnum eru hituð upp með heitu vatni.

Guðrúnarlaug í Dölum er hlaðin laug um 20 kílómetra frá Búðardal, staðsett að Laugum í Sælingsdal. Hún er opin allt árið og er frítt í hana.

Í Laxdælu er sagt frá því að Guðrún Ósvífursdóttir hafi löngum dvalið við laug á sama stað. Í Sturlungu er einnig getið um baðlaugina og svo virðist sem hún hafa verið mikið notuð.

Talið er að upphaflega laugin hafi eyðilagst í skriðuhlaupi en árið 2009 var hlaðin ný laug í nágrenni þess þar sem sú eldri er talin hafa verið og nefnist hún Guðrúnarlaug. Þá var einnig hlaðið blygðunarhús þar sem hafa má fataskipti.

Óshlíð nefninst hlíðin á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals. Hlíðin er snarbrött og var erfið yfirferðar áður en vegur var lagður þar í krigum árið 1950. Um Óshlíð var eini akvegurinn til Bolungarvíkur en í dag hafa Bolungarvíkurgöng leyst veginn af hólmi. Göngin voru opnuð árið 2010 og síðan þá hefur Óshlíðin verið mikið notuð sem útivistarsvæði. Malbikaður vegurinn býður upp á æðislega hjólaleið, sem og hlaupaleið sem fær er allt sumarið. Vegfarendur eru þó beðnir um að sýna aðgát því mikið grjóthrun er úr hlíðinni fyrir ofan og eins hefur vegurinn látið á sjá vegna ágangs sjávar. Óshlíðin er sérstaklega skemmtilegur áfangastaður á björtum sumarkvöldum því sólsetrið sést hvergi betur en frá Óshlíð og Óshólum. Sett hafa verið upp örnefnaskilti við Skarfasker og þar er fullkomið að setjast niður og fá sér kaffisopa.

Taka skal sérstaklega fram að ekki er ætlast til þess að Óshlíðin sé keyrð, en verði akstur fyrir valinu þá eru ökumenn og farþegar í ökutæki þeirra ótryggðir og alfarið á eigin vegum.

Suðureyri er staðsett við sunnanverðan Tálknafjörð og tilheyrir Tálknafjarðarhrepp. Á eyrinni eru leifar af gamalli norskri hvalveiðistöð frá seinni hluta 19. aldar. Hvalvinnsla var í stöðinni öðru hverju í 50 ár eða þangað til árið 1939. Núna er engin starfsemi á svæðinu og því er svæðið ákveðinn gluggi inn í fortíðina. Þegar mest var að gera þá voru 110 manns að vinna hval í stöðinni.

Gígtapparnir Vaðalfjöll ofan Bjarkarlundar og Bjartmarssteinn eru sérstakar jarðmyndanir þar sem móberg hefur veðrast utan af harðara bergi þar sem áður kom upp hraun. Menn hafa lengi talið að Bjartmarssteinn tengist huldufólki og sagnir herma að Bjartmarssteinn sé kaupstaður huldufólks við innanverðan Breiðafjörð.

Á bænum Ólafsdal í Dölum var fyrsti búnaðarskóli Íslands starfrækur, 1880-1907. Þar stofnaði Torfi Ólafsson skóla upp á eigin spýtur.

Auk skólans var einkum mikilvægt framlag hans til bættra vinnubragða og tækjabúnaðar í landbúnaði sem vert er að minnast. Ekki síst tilkoma skoskra ljáa sem hann lét gera og flutti til landsins sem breyttu mjög miklu fyrir íslenska bændur á þeim tíma.

Bærinn Ólafsdalur er í samnefndum dal sem gengur til suðurs úr innanverðum Gilsfirði. Þar stendur myndarlegt skólahús, frá 1896 og er opið gestum á sumrin.

Margar minjar eru einnig í Ólafsdal bæði um byggingar og einnig jarðrækt. Í Ólafsdal er minnisvarði af Torfa og Guðlaugu konu hans eftir Ríkharð Jónsson myndhöggvara.

Ólafsdalsfélagið vinnur að viðhaldi og endurreisn staðarins.

Þegar gengið er upp á Kálfanesborgir er gengið frá tjaldsvæðinu upp að Háborgarvörðu. Frá vörðunni er útsýnið yfir Steingrímsfjörðinn stórfenglegt og tilvalið að stoppa þar til þess að taka myndir og jafnvel hvíla sig aðeins. Þegar gengið er niður er gengið í átt að sjónum þangað til komið er að gamla þjóðveginum. Hann leiðir ykkur inn í þorpið aftur.

Kaldalón er eini fjörðurinn í norðanverðu Ísafjarðardjúpi fyrir innan Jökulfirði. Fjörðurinn er um 5 km langur fjörður er liggur í átt að eina jökli Vestfjarða, Drangajökli. Inn af firðinum er nokkuð undirlendi með jökulöldum og ruðningi og talsverðum grasgróðri. Áin Mórilla fellur undan skriðjöklinum og smáfyllir fjörðinn með framburði. Bærinn Lónhóll er sagður hafa sópast brott í jökulhlaupi á 18. öld. Annars bæjar er getið í Kaldalóni, Trimbilsstaða, en engin merki hafa fundizt um hann. Gríðarlega náttúrufegurð er í Kaldalóni en héraðslæknirinn og tónskáldið Sigvaldi Kaldalóns tók hann sér vegna þess hve hrifinn hann var af fegurð náttúrunnar í Kaldalóni.


Tilvalið er að stoppa í firðinum og keyra afleggjarann áleiðis að jöklinum. Eftir að vegurinn endar þá tekur við um 3 klukkustunda ganga að jökulröndinni, meðfram Mórillu.

Gönguleiðir liggja frá Kaldalóni til Jökulfjarða og yfir Drangajökul til Hornstranda.


Grímsey á Steingrímsfirði er sannkölluð náttúruperla. Einungis 10 mínútna sigling er til Grímseyjar og boðið er upp á áætlunarferðir frá Drangsnesi. Í Grímsey er mikil náttúrufegurð og fjölskrúðugt fuglalíf. Við reiknum með því að það taki um 2 klukkustundir að ganga um eyna. Fleiri upplýsingar er að finna á kaffihúsinu Malarhorni

Fjallið Reykjaneshyrna stendur við mynni Norðurfjarðar á Ströndum. Fjallið er tilkomumikið og stendur eitt og sér yst í firðinum. Reykjaneshyrna er fullkomið fjall til þess að klífa þar sem það er ekki bratt og gefur frábært útsýni yfir nágrennið. Drangaskörð í norðri, Norðurland í austri, Húnaflói og strandir í suðri og Árneshreppur í vestri. Þórðarhellir er hellir sem staðsettur undir klettabelti í Reykjaneshyrnu. Það getur verið flókið að komast inn í hellinn vegna þess hve bratt er við munnann og jarðvegurinn laus í sér. Sagan segir að hellirinin hafi verið skjól fyrir útlaga. Tilvalið er að fara í sund í Krossneslaug eftir góða göngu á Reykjaneshyrnu.

Kletturinn Kerling er mjög skemmtilegt viðfangsefni. Sagan segir að kerling sú er stendur þarna sé í raun tröllkerling sem átti stóran þátt í því að landræman sem tengir Vestfirði við Ísland er svo stutt á milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar. Kerling þessi, ásamt tveimur öðrum tröllum ákváðu eitt sinn í sameiningu að gera Vestfirði að eyju. Hófust þau handa við gröftinn, tvö þeirra að vestanverðu en eitt að austanverðu. Gröfturinn gekk vel og landræman styttist í hverri skóflustungunni. Þegar líða tók að dögun og ekki var búið að moka alla landræmuna þá ákváðu tröllin að forða sér áður en sólin kæmi. Litu þau fyrst yfir firðina í innanverðum Breiðafirði að vestanverðu, sem voru orðnir fullir af eyjum en horfðu síðan yfir Húnaflóann að austanverðu og sáu að engin einasta eyja hefði myndast. Tröllunum sinnaðist við þetta og hlupu því hvort í sína áttina. Kerling á Drangsnesi er sú er gróf að austanverðu en hin tvö tröllin má sjá steingerð á harðahlaupum út eftir Kollafirði. Kerlingu á Drangsnesi líkaði ekki að engin eyja hafði myndast við gröft sinn svo hún lagði allan kraft í það rétt í dögun að mynda eina slíka fyrir utan Drangsnes. Það ku vera eyjan Grímsey í dag.

Á Eiríksstöðum í Dölum eru fornar rústir sem líklega eru bær Eiríks rauða Þorvaldssonar og konu hans Þjóðhildar Jörundardóttur. Rústir bæjarins eru friðlýstar fornminjar.

Á grunni rústanna á Eiríksstöðum var reistur tilgátubær sem vígður var árið 2000 í tilefni þess að 1000 ár voru liðinn frá landafundum Leifs heppna í Ameríku. Við bygginguna var lögð áhersla á að styðjast við rannsóknir á fornu verklagi eins og það hafði verið viðhaft á upprunalega bænum.

Að Eiríksstöðum er lifandi safnastarfsemi. Starfsfólk er klætt að fornum sið og fræðir gestkomandi um lífið fyrir þúsund árum, gamla verkmenningu og búskaparhætti. Jafnframt er hægt að skoða handverk, vopn og ýmsa muni frá sama tíma. Þá eru söguskilti á svæðinu og stytta af Leifi Eiríkssyni eftir Nínu Sæmundsson.

Eiríkur rauði var gerður útlægur af Íslandi fyrir víga sakir og leitaði þá landa í vestri. Hið nýfundna land nefndi hann Grænland og flutti þangað með fjölskyldu sína árið 985 eða 986 og fjöldi fólks fylgdi honum.

Leifur fann og kannaði Vínland árið 1000, fyrstur Evrópubúa, nær 500 árum á undan Kólumbusi. Leifur heppni er því meðal merkustu landkönnuða sögunnar.

Fellsströnd í Dölum er strandlengjan út með Hvammsfirði sem endar við Klofning. Þar fyrir utan er fjöldi eyja og skerja og eru margar eyjarnar kunnar úr sögunni. Þéttbýlt var áður á Fellsströnd.

Staðafell er fornt höfuðból og kirkjustaður á Fellsströnd. Þar var rekin húsmæðraskóli 1927-1976, meðferðarheimili SÁÁ frá 1980-2018 og þar er félagsheimili Fellsstrendinga. Einn af fyrstu kunnum ábúendum á Staðarfelli var Þórður Gilsson, faðir Hvamms-Sturlu sem Sturlungar eru komnir út frá. Núverandi kirkja á staðnum er úr timbri og var vígð árið 1891.

Við þjóðveginn er minnisvarði um Bjarna Jónsson sem kenndi sig við bæinn Vog. Meðal almennings er hann ef til vill þekktastur fyrir það að hollenskir vindlar voru kenndir við hann og stóð á vindlakassanum Bjarni fá Vogi.

Í Dagverðarnesi næddi Auður Djúpúðga dögurð er hún kom þar við í leitinni að öndvegissúlunum sínum. Á vinstri hönd á leið niður á nesið, er grjóthringur með grjótbungu í miðju. Þetta er friðlýst.

Talið er að kirkja hafi lengi verið í Dagverðarnesi og núverandi kirkja var byggð árið 1934 úr viðum fyrri kirkju og er hún friðuð. Þar er alla jafna messað einu sinni ári. Úti fyrir nesinu liggur Hrappsey þar sem rekin var fyrsta veraldlega prentsmiðja landsins.

Skarð er bær og kirkjustaður á Skarðsströnd í Dölum. Hafa margar söguhetjur Íslendingasagnanna átt þar heima og afkomendur Skarðverja búið þar lengi, jafnvel alveg frá landnámi. Við Skarð er kennd Skarðsbók, sem á er rituð Jónsbók, lögbók Íslendinga frá árinu 1281.

Einn af stórbændum sem búið hafa á Skarði var Björn hirðstjóri Þorleifsson og kona hans Ólöf ríka Loftsdóttir. "Eigi skal
gráta Björn bónda heldur safna liði" er haft eftir Ólöfu eftir að Englendingar höfðu vegið mann hennar árið 1467.

Lét hún drepa marga Englendinga, en aðra tók hún til fanga og hneppti í þrælkunarvinnu. Voru þeir meðal annars látnir gera steinstétt mikla úr hellum að Skarðskirkju og sjást enn merki hennar. Þau hjón voru auðugust hjón á Íslandi á sinni tíð og margir Íslendingar taldir út frá þeim komnir.

Skarðskirkja var lengi vel höfuðkirkjan í Skarðsþingum. Núverandi kirkja var endurbyggð 1914-1916. Í Skarðskirkju er margt um stórmerka gripi. Sem dæmi má nefna alabasturmyndir frá 15 öld og prédikunarstólinn sem er frá 17 öld.

Garðar BA er elsta stálskip Íslendinga og situr það í fjörunni við Skápadal í Patreksfirði. Skipið er vinsæll viðkomustaður ferðalanga á svæðinu. Sérkennileg staðsetning skipsins og ryðgað yfirborð þess er vinsælt viðfangsefni ljósmyndara. Upprunalega kom skipið til Íslands í seinni heimsstyrjöldinni. Eftir komuna til landsins fékk skipið nafnið Siglunes SI 89 og ný vél var sett í það. Árið 1963 fékk skipið nafnið Garðar BA 64. Árið 1981 var skipið orðið hættulegt og ekki hæft til notkunar og var því siglt upp í grunna fjöru við Skápadal í Patreksfirði þar sem það liggur enn.

Í Fossfirði, einum fjarðanna sem liggja inn af Arnarfirði er að finna svokallað A hús, sem hefur vakið heimsathygli á samfélagsmiðlum og víðar fyrir þær sakir að það er afar sérstakt í laginu og stendur eitt og yfirgefið á fallegum stað. Húsið hefur verið mjög vinsælt á meðal ljósmyndara og forvitinna ferðalanga.

Krosshólaborg í Dölum er rétt við veginn sem liggur vestur á Fellsströnd. Af borginni er gott útsýni.

Sagt er að landnámskonan Auður djúpúðga, sem nam land í Dölum, hafi farið þangað til bænahalds og var um það leyti mikil átrúnaður á klettaborginni, þar sem talið er að Auður hafi látið reisa krossa, enda kristin. Skammt þar frá eru Auðartóttir.

Kvenfélagskonur í Dölum reistu minnisvarða, steinkross um Auði djúpúðgu árið 1965 og sumarið 2008 var sett upp söguskilti á staðnum. Bílastæði eru við Krosshólaborg og einungis stuttur spölur þaðan upp á borgina sjálfa.

Í Dagverðarnes í Dölum kom Auður djúpúðga í leit að öndvegissúlunum og snæddi þar dögurð og dregur nesið nafn sitt af þeim viðburði.

Á vinstri hönd, á leið niður á nesið, er friðlýstur grjóthringur með grjótbungu í miðju.

Talið er að kirkja hafi lengi verið í Dagverðarnesi. Núverandi kirkja var byggð árið 1934 úr viðum fyrri kirkju og er hún friðuð. Þar hefur alla jafna verið messað einu sinni ári. Úti fyrir nesinu liggur Hrappsey þar sem rekin var fyrsta veraldlega prentsmiðja landsins

Hafratindur í Dölum, sem var kosinn fjall Dalanna af Dalamönnum árið 2013, er 923m formfagur og tignarlegur og sést víða. Víðsýnt er af fjallinu og sagt er að útsýni sé yfir sjö jökla af tindinum.

Hafratindur er auðveldur uppgöngu og gangan talin hæfileg áskorun venjulegu fólki. Gönguleið hefur ekki verið stikuð og ferðamenn eru á eigin ábyrgð á svæðinu. Þeir sem hyggjast ganga á fjallið eru beðnir um að setja sig í samband við landeigendur í Ytri Fagradal eða á Fossi.

Tenging Frakklands við Ísland spilar stóran hluta af sögu Dýrafjarðar. Ein helsta tengingin sem enn má sjá í dag er grafreitur frönsku sjómannanna sem staðsettur er við sjávarsíðuna í Haukadal fyrir utan Þingeyri. Frakkar veiddu mikinn fisk við Ísland á 18. og 19. öld og var það einu sinni stefna þeirra að fá Dýrafjörð undir franska nýlendu. Grafreitnum er vel við haldið og er það tákn um sterkar tengingar Frakklands og Íslands enn þann dag í dag.