Vaðalfjöll eru tveir blágrýtisgígtappar sem standa um það bil 100 metra upp úr heiðinni ofan við Berufjörð og Þorskafjörð í Reykhólahreppi. Talið er að fjöllin dragi nafn af miklum vöðlum eða leirum í Þorskafirði. Vaðalfjöll sjást vel víðsvegar að og úr öllum áttum, útsýnið af toppnum er virkilega stórfenglegt og sést vel inn á Vestfirðina ásamt því að sjá yfir Breiðafjörðinn og yfir í Dalina.
Auðvelt er að ganga upp á topp á báðum töppunum, jafnvel að byrja á þeim lægri og halda svo upp á þann hærri úr skarðinu á milli þeirra tveggja.